Egyptar notuðu hvelfingar ekki mikið. Þessi mynd er frá geymsluhúsum við Ramesseum-musterið.

Í Egyptalandi er að finna mikinn fjölda fornra musterisbygginga úr stórum steinblokkum, en aðeins eru fáein dæmi um hvelfingar. Þær eru þó til, en ekki nærri eins þróaðar og hvelfingarnar sem þekkjast frá tímum Rómverja og í Evrópu á miðöldum. Bogahvelfingar sem mynda hálfhring um láréttan öxul voru þannig þekktar í Egyptalandi svo snemma sem um 2600 f.Kr. Þær tíðkuðust í húsum, geymslum og neðanjarðargöngum að grafhýsum.

Stærstar þeirra hvelfinga sem varðveist hafa eru í gripahúsum við Medinet Habu-musterin, sem byggð voru á tímum Ramsesar 3. (um 1198-1166 f.Kr.) fyrir um 3.170 árum. Þessar hvelfingar eru heilir 8,6 metrar á breidd. Í korngeymslum kringum Ramesseum-musterið, sem Ramses 2. (um 1291-1225 f.Kr.) lét byggja, er að finna enn eldri hvelfingar. Þær eru sums staðar allt að 4,1 m að breidd og hæðin nær upp í 2,43 m.

En ferhyrnd hvolfþök með krosshvelfingum, þekktu Egyptar ekki. Slíkar hvelfingar byggðu Rómverjar fyrstir manna.