Þegar slegið er á uppblásinn pappírspoka, eykst loftþrýstingurinn þar til pokinn springur. Það er breytingin á loftþrýstingnum sem veldur hvellinum.

Það er reyndar ekki alls kostar einfalt að svara því hvers vegna pappírspoki gefur frá sér svo mikinn hávaða þegar hann er blásinn upp og sprengdur. Sprengdir pappírspokar eru ekki meðal helstu viðfangsefna vísindamanna.

Svo mikið er þó víst að hljóð myndast við þrýstingsbreytingu í loftinu og hávær hljóð eru til marks um mjög breyttan þrýsting. Slíkar þrýstingsbreytingar má framkalla með ýmsu móti, t.d. skella dyrum, drepa flugu á vegg með dagblaði eða þá sprengja pappírspoka.

Þegar slegið er á pokann þrýstist loftið í honum saman og loftþrýstingurinn eykst mjög hratt. Þegar pokinn rifnar þýtur þetta þjappaða loft út í formi þrýstibylgju sem berst gegnum loftið. Þrýstibylgjan skellur á eyranu og við upplifum hana sem hávært hljóð.

Blöðrur gefa líka frá sér háværan hvell þegar þær springa og í fljótu bragði mætti ætla að ástæðan sé sú sama. Þetta er þó ekki alveg víst. Hér getur skýringin líka verið sú að útþanið gúmmíið í blöðrunni skreppur skyndilega saman. Hugsanlegt er að leifar blöðrunnar nái svo miklum hraða að þær rjúfi hljóðmúrinn þegar þær draga sig saman og hvellurinn kynni sem sagt að stafa af því.