Ef hengibrýr á borð við Millennium-brúna eru ekki rétt hannaðar, geta þær tekið að sveiflast í vindi og taktfast göngulag margra getur enn aukið á sveiflurnar.

Vindurinn getur sveiflað hengibrúm til hliðanna og við réttar aðstæður geta litlar hreyfingar á brúnni styrkt hver aðra. Sé brúin ekki rétt hönnuð getur allt brúargólfið tekið að sveiflast stjórnlaust með hinum óhugnanlegustu afleiðingum. Þetta varð mönnum ljóst þegar Tacoma Narrows Bridge í Bandaríkjunum hrundi árið 1940, ári eftir að smíði hennar lauk.

Þetta slys opnaði augu brúarsmiða fyrir afli vindsins, en árið 2000 voru það breskir verkfræðingar sem sýndu af sér einum of mikla fífldirfsku þegar þeir byggðu göngubrúna Millennium Bridge yfir Thames-fljót í London. Þegar brúin var formlega tekin í notkun höfðu allt að 100.000 manns safnast saman til að ganga yfir brúna. En hún tók fljótlega að sveiflast svo mikið að fólk nánast valt á milli handriðanna og henni var þá strax lokað.

Það sem gerðist var að vindurinn kom örlítilli sveiflu á brúna og fólk tók þá að “stíga ölduna” eins og sjómenn gera. Þannig voru allir skyndilega farnir að ganga í takt og einmitt þessi taktur kom brúnni til að sveiflast enn meira. Nauðsynlegt reyndist að styrkja brúna með allmörgum höggdeyfum sem hamla gegn sveiflum áður en unnt var að opna þessa 325 metra löngu brú á ný í febrúar árið 2002.