Kortið yfir áhrif manna á heimshöfin sýnir að 3,7% hafsvæða eru ósnortin af mannavöldum en 41% hafanna hafa orðið fyrir miðlungs eða mjög miklum áhrifum. Mest eru áhrifin við Norður-Evrópu, Austur-Asíu og hluta af Norður-Ameríku.

Umhverfi

Aðgerðir manna á heimshöfunum hafa orðið sífellt víðtækari á síðustu öldum. Til að skapa sér heildarmynd af áhrifunum á höfin hefur hópur sjávarfræðinga, m.a. hjá umhverfisgreiningarstofnuninni í Santa Barbara í Bandaríkjunum, sett saman nýtt heimskort þar sem nýttar eru upplýsingar af 17 mismunandi sviðum til að meta heildaráhrifin.

Að grunni til byggist nýja heimskortið á allnokkrum viðamiklum og víðtækum þekkingarsviðum þar sem til voru hnattrænar upplýsingar. Hér má m.a. nefna fiskveiðar, siglingar, mengun sem berst af þurrlendi, aðflutningar nýrra tegunda til ákveðinna svæða, breytingar á útfjólublárri geislun og súrnun sjávar vegna aukins koltvísýrings í gufuhvolfinu. Allir þessir þættir voru settir inn í reiknilíkan þar sem m.a. voru metin áhrif einstakra þátta á mismunandi hafsvæðum. Hér var t.d. tekið tillit til þess að hafsvæði með fjölbreyttu vistkerfi verður fyrir meiri áhrifum en hafsvæði þar sem vistkerfi eru fábreyttari.

Að öllu samanlögðu varð niðurstaðan sú að einungis um 3,7% hafsvæða á hnettinum hafi orðið fyrir litlum eða litlum sem engum áhrifum, en 41% hafsvæða hafi orðið fyrir miklum eða mjög miklum áhrifum.