Þessi stytta er höggvin úr svörtu graníti og sýnir Amenhotep III. sitjandi.

Egypskir og evrópskir vísindamenn hafa nú fundið tvær styttur af Amenhotep III. nálægt grafhýsi hans rétt hjá Luxor. Önnur styttan sýnir Amenhotep III. sitjandi, höggvinn í svart granít, en hin er úr kvartsi og sýnir þennan fræga faraó sem sfinx.

Amenhotep III. skildi eftir sig meira en 250 styttur eftir langa konungsævi á tíma 18. konungsættarinnar. Hann ríkti á mikilli gullöld í sögu Egypta. Á fornleifum frá þessu tímabili má glöggt sjá að forn-egypsk list hefur hér náð hámarki. Amenhotep III. lét m.a. byggja hið fræga Karnak-musteri. Hann var að endingu grafinn í vesturhluta Konungadalsins.