Reniumdibóríð er gert í rannsóknastofu. Í föstu formi (til hægri) er það nógu hart til að rispa demant.

Demantar eru harðasta efni sem finna má í náttúrunni, en þeir eru þó ekki lengur harðasta efni sem til er. Harka efna er gjarnan mæld á Mohs-kvarða, sem byggður er á steinefnum sem er að finna í náttúrunni. Hér er steinefnið talk skilgreint með hörkustig 1 en demantur með hörkustig 10. Öllum öðrum efnum er svo raðað á þennan kvarða eftir getunni til að rispa í yfirborð annarra efna. Efni með hörkustig 7 getur þannig rispað í yfirborð efna með hörkustig 1 – 6.

Nú er unnt að framleiða fáein efni sem eru harðari en demantur. Harðasta efnið er gert úr kolefnis-60-sameindum, sem þýskir vísindamenn pressuðu undir gríðarmiklum þrýstingi árið 2005 og hituðu upp í 2.200 gráður. Þetta efni kallast ACNR (Aggregated Carbon NanoRods) og það er 11% erfiðara að pressa þetta efni saman en demanta. Til eru önnur efni, harðari en demantar, sem ekki eru gerð úr kolefni. Dæmi um þetta er efnið reniumdibóríð sem vísindamenn í Kaliforníu gerðu 2007 og sýnt hefur verið fram á að geti rispað í yfirborð demants. Efnið er þó ekki jafn hart og ACNR.