Múmíurnar eru enn í þeim fötum sem líkin voru grafin í. Hárdúskurinn var skylduhárburður karlmanna á tíma Qing-keisaranna.

Fornleifafræði

Við byggingarframkvæmdir í Turfan í Norðvestur-Kína, komu byggingarverkamenn fyrir tilviljun niður á uppþornuð og vel varðveitt lík fimm karlmanna. Allir höfðu mennirnir langan hárdúsk, voru um 170 sm á hæð og allir klæddir í jakka og buxur úr bómull.

Bráðabirgðarannsóknir benda til að mennirnir hafi verið embættismenn hjá Qing-keisaraættinni sem ríkti frá 1644 til 1912. Enn er ekki fullvíst frá hvaða tíma þessar múmíur eru, en hitt er ljóst að klippingin er í þeim stíl sem innleiddur var snemma á 17. öld af Manchu-höfðingjanum Nurhaci, sem grundvallaði það ríki sem síðar varð þekkt sem Qing-veldið. Á tíma Nurhacis áttu Manchu-menn að raka fremri hluta höfuðsins en taka hárið að öðru leyti saman í tagl sem ekki mátti klippa. Þannig gerði útlitið kleift að þekkja hinn ráðandi Manchu-ættbálk frá öðrum Kínverjum. Síðar náði þessi klipping til allra kínverskra karlmanna og var þá orðin tákn um undirgefni. Dauðarefsing lá við því að fylgja ekki þessari hártísku.