Víkingar gætu hafa notað korderít til að halda áttum.

Það er raunar ekki allt of mikið vitað um hvernig menn fóru að því á víkingaöld að halda áttum á opnu hafi. Vafalaust hafa þeir fylgst með sólargangi, stjörnum, skýjafari og flugi fugla. Ríkjandi vindáttir, straumar, litur sjávar og hitastig geta líka hafa komið að haldi. Ekki er vitað með fullri vissu hvort menn hafa notað svokallaðan sólarstein til að greina stöðu sólar þegar alskýjað var. Sólarsteins er að vísu getið nokkuð víða (þó ekki í sambandi við siglingar), m.a. í Ólafs sögu helga.

Meðal þeirra vísindamanna sem verið hafa jákvæðir gagnvart þeirri hugmynd að menn hafi notað sólarsteina við siglingar á víkingaöld, má nefna danska fornleifafræðinginn Thorkild Ramskou, sem eftir athuganir á texta fornsagnanna, dró þá ályktun að sólarsteinn gæti sem best hafa verið notaður. Hann setti fram þá tilgátu að steinninn gæti hafa verið bergtegund með svipaða virkni og polaroidsía, t.d. korderít eða túrmalín en hvort tveggja er að finna í Noregi.

Tilraunir með korderít-kristalla hafa sýnt að gegnum þá má ákvarða stöðu sólar á alskýjuðum himni þannig að ekki skeiki nema 5 gráðum til eða frá.