Fyrir genagræðsluna skynjaði apinn Dalton ekki rautt ljós. Nú getur hann greint rauðu deplana frá þeim gráu.

Með því að bæta við einu stöku geni hefur vísindamönnum tekist að skapa svonefndum íkornaöpum (Samiri) venjulega litasjón.

Karlkyns íkornaapar eru allir fæddir litblindir – geta hvorki greint rautt né grænt, þar eð vissar skynfrumur vantar í augað. Vísindamennirnir sprautuðu í apana Dalton og Sam veiru sem bar í sér það gen sem kóðar fyrir prótínunum sem mynda þessar skynfrumur. Hægt og hægt tók prótínið að myndast í nethimnufrumunum og eftir 20 vikur voru aparnir komnir með eðlilega litasjón og halda henni ennþá, tveimur árum síðar. Fyrir genagræðsluna sáu aparnir aðeins mun á gulu og bláu, en að henni lokinni lærðu þeir fljótt að greina mun á grænu og rauðu. Uppgötvunin bendir sterklega til að litaskyn hafi komið til sögunnar með aðeins einni stökkbreytingu. Sé svo kynni einföld lækning við litblindu manna að vera innan seilingar.