Fornleifafræðingarnir hafa þegar grafið upp 8 af um 100 húsum handverksmannanna.

Fornleifafræði

Í von um að geta upplýst leyndardóma Stonehenge hafa fornleifafræðingar árum saman leitað að rústum steinaldarbyggðar á þessu svæði - fram að þessu án árangurs. Það vakti því óneitanlega athygli þegar breskir fornleifafræðingar uppgötvuðu nýlega leifar lítils þorps frá nýrri steinöld í aðeins örfárra km fjarlægð frá Stonhenge. Þorpið hefur staðið í um 3,2 km fjarlægð frá Stonehengi og í grennd við annað og minna þekkt minnismerki sem nefnist “Durrington Walls”.

Fornleifafræðingarnir hafa nú þegar grafið upp 8 hús í þorpinu en þeir telja að þar megi finna leifar alls hátt í 100 húsa. Kolefnisgreining sýnir að þorpið er frá svipuðum tíma og Stonhenge, þ.e. um 2500 f.Kr. Fornleifafræðingarnir koma m.a. frá Manchester-háskóla og “National Geographic Society” og þeir telja að íbúar þessara húsa hafi verið þeir handverksmenn sem reistu bæði Stonhenge og Durrington-veggina. Húsin stóðu á bakka Avon-árinnar og við göngustíg sem á sínum tíma hefur tengt minnismerkin tvö. Þau átta hús sem þegar hafa verið grafin upp voru öll byggð úr timbri, ferningslaga, 5 m á hvern veg og með eldstæði í miðjunni.

Fornleifafræðingarnir hafa auk húsanna sjálfra fundið í þeim ummerki um svefnstaði, setbekki og geymsluskáp sem staðið hefur við vegginn beint á móti dyrunum. Steináhöld og dýrabein hafa fundist í þorpinu og leifar grísabeina sýna að grísirnir hafa verið um 9 mánaða gamlir þegar þeim var slátrað. Þorpsrústirnar sýna að íbúarnir hafa byggt bæði Stonehenge og Durrington-veggina og það voru líka þeir sem nýttu þessi mannvirki. Íbúarnir héldu mikla hátíð við Durrington-veggina við vetrarsólhvörf, en við Stonhenge var hinna dauðu minnst við sumarsólstöður.