Egyptar reyndu að sýna sem mest af líkamanum

Á tímum faraóanna fylgdi egypsk list föstum reglum og líkaminn var alltaf sýndur þannig að allir útlimir sæjust eins greinilega og hægt var. Egyptar teiknuðu andlit, handleggi og fætur í prófíl, meðan bolurinn og augu voru jafnan teiknuð framan frá. Með þessum hætti gat teiknarinn sýnt mest af allri fyrirmyndinni.

Þetta var í reynd hugmyndin að baki teikningum og lágmyndum, sem er einkum að finna í gröfum hinnar egypsku yfirstéttar. Hugmyndin var að teikningar kæmu í stað þræla, sem áður voru drepnir til að þjóna herrum sínum í dauðaríkinu.

Dýr voru einnig teiknuð í prófíl enda mátti þannig sýna hreyfingar þeirra sem best.