Þungvetnisverksmiðjan í Rjukan hefði ekki getað ráðið lyktum stríðsins.

Kjarnorkuáætlun Þjóðverja hefur verið talsvert umdeild meðal sagnfræðinga, en þeir eru þó einhuga um að Þjóðverjar hafi ekki verið komnir neitt nálægt því að geta gert út um seinni heimsstyrjöldina með kjarnasprengjum. Ástæðan er einkum sú að í kjarnorkusprengju þarf úran-235, sem ekki er nema 0,7% af því úrani sem er að finna í náttúrunni. Að auki er forvinnsla úrans-235 erfið, því efnið þarf að vinna úr úrani-238. Þetta er dýrt ferli og var stríðshrjáðum efnahagnum ofviða.

Þjóðverjar höfðu komið sér upp tilraunakjarnakljúf í Haigerloch, en óvíst er hvort þar átti að framleiða kjarnorkusprengjur. Svo mikið er víst að þýsku eðlisfræðingunum tókst ekki að fá fram keðjuverkun við kjarnaklofnun en án hennar er hvorki hægt að nýta kjarnorkuver né smíða kjarnorkusprengju. Að auki þurftu þeir þungvetni til að koma ferlinu af stað. Þess vegna hafði sprengjuárásin á þungvetnisverksmiðjuna í Rjukan ákveðna þýðingu, þótt þungvetni hefði mátt framleiða annars staðar.