Laika drapst úr hita og streitu í síðasta lagi eftir fjóra hringi kringum jörðina.

Tíkin Laika, sem skotið var út í geiminn um borð í Spútnik 2. í nóvember 1957, drapst úr hita og streitu fáeinum klukkustundum eftir geimskotið.

Spútnik 2. var skotið á loft aðeins mánuði á eftir Spútnik 1. Öllum undirbúningi var hraðað sem framast var kostur og mönnum var því fullljóst að ekki yrði unnt að ná tíkinni aftur til jarðar. Engu að síður var ætlunin að gera henni lífið sæmilega bærilegt úti í geimnum. Hitajöfnunarbúnaður var í geimfarinu og lítil vifta sá um loftræstingu. Með í för var líka súrefni, matur og vatn til einnar viku.

Í geimskotinu hækkaði púls Laiku úr 103 í 240 og það kom mönnum ekki á óvart. Hins vegar leið þrefaldur sá tími sem reiknað hafði verið með áður en hjartslátturinn mældist aftur eðlilegur og hér voru komin fyrstu ummerki alvarlegrar streitu. Laika át þó og gelti fyrstu hringina kringum hnöttinn. Fljótlega kom þó í ljós að ekki var allt með felldu. Hitajöfnun virkaði ekki eins og til var ætlast og hitastigið fór í 40 gráður. Þetta var meira en Laika þoldi og hún drapst 5 – 7 klukkustundum eftir geimskotið.