Dýr verptu eggjum löngu fyrir daga hænsnanna. Hér eru um 135 milljón ára forneðluegg.

Eggið kom á undan hænunni. Svo mikið er alveg víst. Fyrstu eggin eða svipuð fyrirbæri hafa að líkindum orðið til með fyrstu fjölfrumungunum fyrir um milljarði ára. Fyrstu fuglseggjunum verptu svo fyrstu fuglarnir löngu síðar, eða fyrir svo sem 150 – 155 milljónum ára. En hænsnfuglar komu enn síðar fram. Líffræðingar eru reyndar ekki vissir en telja að þeir fyrstu hafi orðið til fyrir nálægt 70 milljónum ára, sem sagt skömmu áður en risaeðlurnar dóu út.

Jafnvel einföldustu núlifandi fjölfrumungar, sæsvampar, framleiða egg. Egg sæsvampa, skordýra og ánamaðka eru þó allt öðruvísi gerð en egg nútíma fugla, þar sem fósturhimna er til staðar. Fuglarnir hafa tekið egg sín í arf frá skriðdýrunum sem urðu fyrst til að verpa eggjum á þurru landi fyrir um 340 milljónum ára. Þess vegna eru egg hænsna og allra annarra fugla með fósturhimnu.