Ein af gröfunum hefur verið endurnýtt. Lík hefur verið sett ofan á önnur sem fyrir voru.

Í Þýskalandi er nú verið leggja nýja járnbraut milli Erfurt-Halle og Leipzig – þýskum fornleifafræðingum til mikillar ánægju. Þeir fá nefnilega að rannsaka landið áður en vinnuvélunum er hleypt að. Afraksturinn er þegar kominn upp í 55.000 muni sem fundist hafa á alls 75 hekturum.

Fornleifafræðingarnir hafa fundið 8 grafir frá tímum svonefndrar Aunjetitz-menningar (um 2200-1600 f.Kr.), sem fræg er fyrir himinskífuna frá Nebra, 2 kg þunga koparskífu, skreytta gulltáknum fyrir sól eða tungl í fyllingu ásamt stjörnum. Í einni gröfinni mátti sjá að hún hafði verið endurnýtt og eldri líkum ýtt til hliðar til að rýma til fyrir nýjum. Í annarri gröf hafði kona verið grafin í setstellingu, sem telst óvenjulegt. Vísindamennirnir vonast til að DNA-rannsóknir sýni hvaðan fólkið kom og hvernig það kann að hafa verið skylt.