Nútímamenn hertu áhöld í eldi við strönd Suður-Afríku fyrir ævalöngu.

Það eru a.m.k. 72.000 ár síðan menn sem bjuggu á suðurodda Afríku tóku að nota eld til áhaldagerðar. Þessir ævafornu nútímamenn þróuðu sérstaka aðferð til að gera breytingar á steinum með því að brenna þá og tókst þannig að skapa sér verkfæri sem auðvelduðu þeim lífsbaráttuna. Kyle Brown, hjá Höfðaborgarháskóla, segir þetta merkja að forfeður okkar hafi verið greindari en menn hafa fram að þessu gert ráð fyrir. Brown og félagar hans fundu steinhníf úr svonefndu sílkreti. Ómeðhöndluð er þessi bergtegund brothætt og viðkvæm en harðnar í eldi og fær þá á sig rauðleitan blæ. Þessi brenndi steinhnífur sannar notkun manna á eldinum og aldursgreining sýnir að hann er a.m.k. 72 þúsund ára.

Vísindamennirnir telja að brennd steináhöld geti átt þátt í að tímasetja nokkurn veginn upphaf nútímamannsins. Fram undir þetta hafa menn haldið að ekki hafi verið tekið að herða áhöld í eldi fyrr en fyrir svo sem 25.000 árum og þá í Evrópu. En það gerðist sem sagt minnst rúmum 45 þúsund árum fyrr.

Einmitt það að hafa vald á eldinum svo snemma, segja vísindamennirnir að geti skýrt hvers vegna nútímamenn sem lögðu undir sig Evrópu, hafi á tiltölulega skömmum tíma haft Neandertalsmenn alveg undir í samkeppninni.