Örfín lína skildi að góðu, fjölkunnugu konuna í þorpinu annars vegar og nornina hins vegar og enginn vafi lék á að gömul kona sem bæði var ljót og drusluleg væri norn.

Breski fornleifafræðingurinn Jacqui Wood kærir sig ekki um að túlka óútskýranlega hluti sem hún finnur með því að þeir eigi rætur að rekja til trúarathafna. Þegar hún svo rakst á margar grafnar holur með dularfullu innihaldi í 8.500 ára gamalli byggð í Cornwall varð hún hins vegar að játa að dulræn öfl lægju að baki.

Fyrst í stað var álitið að holurnar, sem voru u.þ.b. 25 sm x 35 sm að utanmáli, hefðu verið grafnar fyrir stoðir. Síðan kom í ljós að sumar þeirra voru klæddar að innan með hvítum álftarfjöðrum. Fjaðrirnar voru enn fastar við leifarnar af ham fuglsins. Ofan á þeim var hrúga af tinnusteinum, sem sóttir höfðu verið um 25 km langan veg, alla leið frá stað nokkrum við ströndina sem nefnist Swan Pool. Þarna var enn fremur að finna klær ýmissa annarra fugla. Wood og starfsfélagar hennar fundu alls átta slíkar holur og í tveimur þeirra leyndist hið undarlegasta úrval af ýmsum fuglsleifum en hinar holurnar voru á hinn bóginn tómar, að undanskildum einstaka fjöðrum sem voru til marks um að þar hefðu einnig verið færðar fórnir.

Árið eftir, þ.e. 2005, fundust fleiri dularfullar holur með fuglsleifum. Ein þeirra var hringlaga og hafði að geyma 55 fuglsegg af öllum stærðum og gerðum, auk svansfjaðranna. Eggjaskurnin var horfin en rakinn umhverfis eggin hafði gert það að verkum að forug og hrufótt eggjahimnan hafði varðveist. Sjö eggjanna höfðu að geyma hænuungafóstur sem voru komin að því að klekjast út. Sitt hvorum megin við eggjahrúguna var að finna ýmsar leifar af skjó, en sá fugl hefur einmitt löngum verið tengdur við ýmsar goðsagnir um happasæld og hindurvitni.

Ófrjóar konur færðu eggjafórnir

Þegar Woods hafði tekist að safna nægjanlegu fé fyrir aldursgreiningu með kolefni-14 kom í ljós að innihaldið í holunum átti rætur að rekja til miðrar 17. aldar. Þetta var tímabil mikils umróts í Englandi, á barmi borgarastríðs, þar sem stundaðar voru ofsóknir á fólki sem reyndi að bæta tilveruna, eða þá að spilla henni, með töfraþulum, töfraformúlum, jurtablöndum og handayfirlagningum, sjálfum sér og nágrönnum sínum til handa.

Leitin að galdranornum, þ.e. fólki sem lagði stund á aðrar kennisetningar en þær sem kirkjan viðurkenndi, og hallaði sér um of að gamalli þjóðtrú, náði hámarki á 17. öld í norðurhluta Evrópu. Hugsanleg skýring á þessum dularfullu fórnarholum gæti fengist með því að tengja þær við heilaga Bride af Írlandi, sem var verndardýrlingur lítilla barna og sem hugsanlegt er að hafi verið af sama meiði og heiðna gyðjan Birgitta. Hugsanlegt er að nýgiftar konur, sem ekki tókst að verða með barni þegar frá leið, hafi fært heilagri Bride egg að fórn, því egg hafa löngum verið tengd við frjósemi.

Svanurinn kann svo að hafa átt að færa hamingju, sem fugl ensku konunganna, og svo er einnig hugsanlegt að hann hafi átt að færa langvarandi hjónaband, því svanirnir maka sig fyrir lífstíð. Ef konurnar urðu þungaðar urðu þær að flýta sér að tæma holurnar til að verða ekki grunaðar um galdra og fjölkynngi. Sumar holurnar höfðu að sama skapi verið tæmdar nánast algerlega, að undanskildum nokkrum svansfjöðrum.

Flaska með nöglum afstýrði bölvun

Í grennd við fjaðraholurnar fundu Wood og starfsfélagar hennar tvær laugar, sem í rann uppsprettuvatn, og voru þær þaktar hvítu kvarsi að innan. Í laugunum var að finna alls 128 efnisbúta, sex títuprjóna, hluta úr skóm, lynggreinar (sem sagt er að séu happagripir), afklipptar neglur, mannshár og hluta úr einhverju sem minnir á nornaketil. Tveir efnisbútarnir voru gerðir úr ull og silki, sem gefur til kynna að fatnaðurinn hafi tilheyrt hátt settri manneskju.

Hlutirnir í fjaðraholunum og kvarsþöktu laugunum eiga rætur að rekja til u.þ.b. 1640. Hvíta kvarsið hefur gert það að verkum að laugarnar hafa lýst í myrkri, líkt og þær væru eins konar heilagir brunnar. Þær hafa hugsanlega gegnt hlutverki samkomustaða fyrir trúarlegar athafnir fyrir 6.000 árum og það er sá aldur sem Wood vonast eftir að geta greint í jarðlögunum sem laugarnar hafa verið grafnar í. Allt útlit er fyrir að staðurinn hafi gegnt mikilvægu hlutverki sínu um þúsundir ára og endað daga sína sem felustaður fyrir nokkuð sem minnir einna helst á "galdraflöskur" 17. aldar en um var að ræða flöskur sem fylltar voru með þvagi, hári og afklippum af nöglum og sem síðan voru grafnar sem seiðmögnuð tilraun til að afstýra nornabölvun. Um leið og innihald flöskunnar tortímdist í jörðu átti það sama að henda nornina og bölvun hans eða hennar. Þess háttar afstýringarseiðmagn, ásamt allri mögulegri þjóðtrú, var barið niður með báli og brandi í Englandi á 17. öld og holurnar fylltar af mold. Sömu örlög hlutu aðrar áþekkar fórnarholur annars staðar í Cornwall. Í Evrópu áttu sér stað um 100.000 nornaréttarhöld á tímabilinu frá 1480 fram yfir 1700 og lyktaði um helmingi þeirra með aftöku. Í langflestum tilvikum var um að ræða konur.

Áður fyrr töldu margir að nornaveiðarnar hefðu aðallega tilheyrt miðöldum en rannsóknir undanfarinna ára hafa leitt í ljós að meginþorri þeirra átti sér stað eftir siðaskiptin og fram á 17. öld. Skömmu eftir að Innocentius VIII páfi kunngjörði bannbréf um nornir í Þýskalandi árið 1484, gáfu tveir munkar af Dóminíkureglunni, þeir Heinrich Kramer og Jacob Sprenger, út bókina "Malleus Maleficarum", sem einnig hefur gengið undir heitinu "Nornahamarinn", en um var að ræða handbók um nornaveiðar. Þarna var í fyrsta sinn bent á tengslin milli djöfulsins og fjölkunnugra karla eða kvenna, sem nýttu sér gamla, heiðna þjóðtrú til að lækna, eða skaða, með bænum eða bölvunum, jurtablöndum eða handayfirlagningum. Fram til þessa hafði slík starfsemi aðallega flokkast undir heimskulega hjátrú og villutrú en frá síðari hluta 15. aldar fór að bera á þeim hugmyndum að nornirnar hefðu verið forfærðar af sjálfum djöflinum til að afneita Kristi og að tilbiðja skrattann á óguðlegum og siðlausum nornaathöfnum.

Nornasöfnun átti sér stað með kynsvalli

Samkvæmt þjóðtrúnni átti liðssöfnun norna sér þannig stað að fátæk kona mætti einhverjum sem lokkaði hana með í veislu. Konan var þá kynnt fyrir djöflinum og henni skipað að gangast honum á hönd. Konan skyldi því næst kyssa fót djöfulsins. Hann setti á hinn bóginn mark sitt einhvers staðar á líkama konunnar og varð sá staður tilfinningalaus upp frá því. Konan hafði nú gefið djöflinum sál sína og fyrir vikið eignaðist hún staf.

Þegar hún setti stafinn milli fótanna og hrópaði "fljúgðu með djöflinum" átti hún að þjóta um loftin til nornamessu á t.d. Bloksbjerg í Harzen eða staðarins Blåkulla á eynni sem nefnist Bláa ungfrúin á Kalmarssundi. Í yfirheyrslunum viðurkenndu konurnar sem ákærðar voru að þær hefðu etið, drukkið vín, dansað og kysst rassinn á djöflinum á slíkum nornamessum og að þátttakendurnir hefðu stundað kynlíf saman. Þetta var kjarninn í sáttmálunum við djöfulinn og þátttökunni í nornamessunum. Oftast fengust játningarnar án nokkurra misþyrminga, sem voru fátíðari en margir hafa talið. Í mörgum löndum var lögum samkvæmt blátt bann gegn pyntingum ef ekki lágu fyrir sönnunargögn eða játningar.

Kaþólikkar kváðu upp vægari dóma

Galdrabrennur eru ekki einvörðungu bundnar við miðaldir, því þær tíðkuðust einnig á dögum rannsóknarréttarins, en um var að ræða dómstól á vegum páfans, sem settur var á laggirnar árið 1231. Rannsóknarrétturinn einbeitti sér þó fyrst og fremst að trúfélögum sem álitin voru vera frávik frá trúnni og í raun villutrúar, svo sem Katarar og Albigensar. Nornaveiðar voru þó einungis lítill hluti af starfssviði réttarins.

Út frá sjónarhorni hinna ákærðu hefði þó líklegast verið illskárra að vera leiddur fyrir rannsóknarrétt umfram það að lenda í klónum á mótmælendadómsstól. Spænski og ítalski rannsóknarrétturinn voru nefnilega miklu vægari í meðförum og á Spáni var einungis dæmt til dauða í tveimur hundraðshlutum af 44.000 málaferlum og á Ítalíu var ekki um neinar aftökur að ræða eftir 1550. En í raun réttri voru nornaveiðarnar ekki beint tengdar sjálfum trúarreglunum, því þær tengdust miklu frekar bæði breytingum á félagslegum aðstæðum víða í Evrópu svo og tilraunum kirkjunnar, bæði mótmælendakirkjunnar og þeirrar kaþólsku, til að laða fólk að kirkjunum og burtu frá alþýðutrúnni, sem farið var að líta á sem eins konar skaðlegt hindurvitni. Því meir sem þessi þjóðtrú var bendluð við djöfulinn, þeim mun útbreiddari varð sú skoðun að um væri að ræða refsiverða trúvillu.

Bannið gegn því að gera bandalag við yfirnáttúruleg öfl virðist ekki hafa aftrað íbúum Cromwell frá því á seinni tímum. Árið 2008 fundu fornleifafræðingarnir enn fleiri holur með fórnargjöfum. Ein þeirra var klædd með svörtu kattarskinni að innan og í henni leyndust 22 egg sem öll voru við það að klekjast út. Þar var enn fremur að finna kattarklær, tennur og veiðihár. Þessi fórn er sögð eiga rætur að rekja til 18. aldar. Enn önnur hola hafði að geyma feld af hundi, hundstennur og svínskjálka, allt frá miðri 20. öld.

Jacqui Wood segist efast um að fórnirnar hafi hætt um miðja 20. öldina og er þeirrar skoðunar að þær séu enn færðar í laumi hér og þar.