Jarðmyndun sem er að hluta grafin undir hafsbotni undan strönd Indlands gæti verið gígur eftir risastóran loftstein.

Undan vesturströnd Indlands eru leifar af gríðarstórum gíg sem myndaðist þegar loftsteinn féll til jarðar fyrir um 65 milljónum ára. Eldhnötturinn sem skall til jarðar hefur trúlega verið 40 km í þvermál og hann skildi eftir sig 500 km víðan gíg. Þetta er álit vísindamanna hjá Tækniháskóla Texas, sem rannsakað hafa svonefnda Shiva-jarðmyndun sem nú er að hluta grafin undir hafsbotni.

Standist þetta álit vísindamannanna er þetta langstærsti gígur sem fundist hefur á jörðinni. Hinn alþekkti loftsteinn sem féll niður á Yucatan-skaga í Mexíkó um svipað leyti myndaði gíg sem var „aðeins“ 8-10 km í þvermál. Á svæðinu er að finna leifar af iridíum og það sannfærði vísindamennina um að hér væri um loftsteinsgíg að ræða. Í loftsteinum og halastjörnum er oft mikið af iridíum, en það er sjaldgæft efni á þessum hnetti.