Götusali í Englandi gerir allt til að vekja á sér athygli, árið 1935

Enskir sölumenn, sem gengu í hús, gátu þurft að grípa til þess ráðs að hrópa hátt og hringja með bjöllum ef þeir vildu losna við varning sinn. Samkeppnin var hörð, því götusölum fjölgaði gífurlega í hinum vestræna heimi. Allar götur frá því kringum 1800 þyrptust farandsölumenn út á götur og stræti til að losna við fjöldaframleiddan varning iðnríkisins og verksmiðjurnar gerðu út heilu herskarana af sölumönnum sem heimsóttu hvert húsið á fætur öðru. Vegna þess að neytendurnir höfðu ekki boðað sölumennina á sinn fund skipti öllu máli fyrir farandsölumennina að koma sér í mjúkinn hjá væntanlegum viðskiptavinum.

Í handbókinni „Ráðleggingar fyrir farandsölumenn“ frá árinu 1929 fólst fyrsta hollráðið í að spjalla kumpánlega við viðskiptavinina og afla upplýsinga um einkalíf þeirra og leggja síðan upplýsingarnar á minnið svo að grípa mætti til þeirra í síðari heimsóknum. Bókin bjó einnig yfir hollráðum í líkingu við það að „nefna gæði frekar en verð“ og „að taka aldrei nei sem gilt svar“.