Makedónskir stríðsmenn voru um 600 f.Kr. grafnir með dýrmætum fórnargjöfum, m.a. bronshjálmum og silfurnálum.

Nálægt þorpinu Pella um 40 km norðvestur af Þessaloníku hafa fornleifafræðingar grafið út grafir 50 hermanna, sem hafa verið lagðir hér til hinstu hvílu nálægt 6. öld f.Kr. þegar þetta land tilheyrði konungdæminu Makedóníu.

Augu, nef, munnur og bringa hafa verið þakin blaðgulli, ríkulega skreyttu með dýrateikningum sem táknað hafa konungsveldið. Í gröfunum voru líka bronshjálmar og járnvopn, ásamt ýmsum dánargjöfum, svo sem styttum og leirmunum. Þetta bendir til að þessir stríðsmenn hafi verið hátt settir og að líkindum af aðalsættum.

Uppgröfturinn er liður í stærra verkefni og alls hafa nú fundist um 1.000 grafir. Fornleifafræðingarnir segja þó enn mikið verk óunnið, þar eð þegar fundnar grafir séu ekki nema um á að giska 5% af heildarstærð grafreitsins alls.

Grafreiturinn er rétt hjá Pella þar sem Archelaos stofnaði borg með sama nafni í lok 4. aldar f.Kr. Þarna var höfuðborg Makedóníu frá því um 400 f.Kr. og Filippus 2. stækkaði hana á veldisdögum sínum. Árið 356 fæddist þessum sama Filippusi sonurinn Alexander sem átti eftir að verða einn merkasti stríðskonungur sögunnar.

Alexander mikli varð konungur í Makedóníu 336 f.Kr. og lagði 2 árum síðar upp í herferð sína austur á bóginn þar sem hann lagði Persaveldi að fótum sér. Árið 326 fór her hans austur yfir Indusfljót en Indland lagði hann ekki undir sig því hermönnum hans þótti nógu langt farið og þvinguðu hann til að snúa við.