Þessi þangplanta gefur frá sér eitur sem drepur kóralla.

Ofur venjulegt sjávarþang á sinn þátt í auknum erfiðleikum kóralrifja í Kyrrahafi og Karabíuhafi. Vísindamenn hjá Georgia-tæknistofnuninni í Bandaríkjunum hafa rannsakað þangplöntur og kóralla sem algeng eru kringum Fiji-eyjar og undan strönd Panama og komist að raun um að 70% þangplantnanna framleiða eiturefni sem drepa kórallana. Sum kóraldýr drepast á tveim dögum, en önnur hjara upp í 20 daga.

Til að prófa áhrif þangsins komu vísindamennirnir Mark Hay og Douglas Rasher fyrir þangplöntum og kóröllum hlið við hlið. Sumar þangplöntur komust í snertingu við kórallana en aðrar skyggðu bara á þá. Það reyndist einungis vera snertingin sem skaðaði kórallana. Eftir þessa athugun tókst vísindamönnunum að einangra þau efni í þanginu sem drepa kórallana.

Við venjulegar aðstæður ætti þangið þó ekki að skapa kóröllunum neina verulega hættu, þar eð margar fisktegundir lifa á þangi og halda vexti þess þannig í skefjum. En ofveiði hefur útrýmt sumum tegundunum og t.d. lifir nú aðeins ein tegund á því þangi sem mest skaðar kórallana. Hverfi sú tegund af svæðinu, mun þangið óhjákvæmilega breiða úr sér og þrengja enn frekar að kóröllunum, segja vísindamennirnir.